Ferill 468. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1493  —  468. mál.




Svar


umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Eydísi Ásbjörnsdóttur um rafvæðingu skipa og hafna.


          1.      Hvernig hyggst ráðherra fylgja eftir orkustefnu til ársins 2050 þegar kemur að rafvæðingu skipaflotans og hafna vegna orkuskipta?
    Orkuskipti eru eitt af meginleiðarljósum orkustefnu til ársins 2050. Auk þess hafa stjórnvöld sett markmið um full orkuskipti fyrir árið 2040 á öllum sviðum. Töluverða orku þarf til að mæta orkuskiptunum, bæði í formi aukinnar raforkuframleiðslu sem og rafeldsneytis hvers konar. Orkuþörfin árið 2040 gæti numið sjö teravattstundum fyrir orkuskipti á vegum, á hafi og fyrir innanlandsflug.
    Rammaáætlun var samþykkt á síðasta löggjafarþingi sem heimilar nýja orkukosti í nýtingarflokki eftir langa kyrrstöðu. Einnig voru á síðasta þingi samþykkt lög sem heimila aflstækkun virkjana þannig að hún þurfi ekki að fara í gegnum lengra ferli rammaáætlunar. Þá eru starfshópar að störfum sem eru að meta kosti vindorku á landi og á hafi, auk óhefðbundnari kosta eins og varmadælna, sjávarfallavirkjana og framleiðslu flugeldsneytis.
    Til að tryggja framgang orkuskipta er einnig þörf á þróun og framleiðslu vetnis eða rafeldsneytis. Ísland er í kjörstöðu til að framleiða grænt vetni og rafeldsneyti með því að nýta endurnýjanlegar orkuauðlindir sínar. Samkeppnishæft raforkuverð, framboð á grænni grunnorku og 100% grænt raforkukerfi gerir Íslendingum kleift að framleiða grænt vetni á sjálfbæran hátt og á samkeppnishæfu verði. Búist er við því að rafeldsneyti, líkt og e-metanól, e-ammoníak og e-dísill, muni gegna stóru hlutverki við orkuskipti á hafi.
    Orkusjóður hefur verið stórefldur og mun áfram nýtast sem tæki stjórnvalda til að stuðla að orkuskiptum, fyrir umferð um landið, hafið eða í lofti. Stutt er við verkefni sem eru innviða-, eldsneytis- eða tækjaverkefni sem strax við notkun draga úr jarðefnaeldsneytisbrennslu. Undanfarin ár hefur flokkur styrktarverkefna sem falla undir orkuskipti í haftengdri starfsemi, þ.m.t. hafnartengingar og skip, farið stækkandi.
    
          2.      Hver er afstaða ráðherra til þess að hækka mótframlög ríkisins til sveitarfélaga vegna innviðauppbyggingar við hafnir vegna orkuskipta?
    Stuðningur við orkuskipti og innviði sem tengjast þeim, bæði á landi og fyrir orkuskipti á hafi, hafa verið í gegnum Orkusjóð. Í samræmi við fjármálaáætlun verður aukinn stuðningur veittur sem mótframlag til verkefna á þessu sviði og þar með talið til styrkingar raftenginga í höfnum. Þá er, eins og með fyrri styrkveitingar, rekstraraðili hafnarinnar sem leggur í framkvæmdina sem hlýtur styrkinn.